Gunnar Magnús, Erlingur Árni og Sigurður Egill

fimmtudagur, október 22, 2009

Gunnar Magnús 3ja ára og 8 mánaða

Vá! Ég veit ekki einu sinni hvar ég á að byrja til að skrifa um stóra strákinn minn. En það er kannski besta orðið sem á við hann núna: stór! Þegar drengurinn eignaðist lítinn bróður, þá tók hann þvílíkt þroskastökk. Bæði andlega og líkamlega. Hann óx ábyggilega um 5 cm í júlímánuði! Þessi stóri strákur hefur þróað með sér afskaplega sterka félagsþörf. Það er alveg glatað að vera einn heima. Hann er alltaf að biðja mig að hringja í mæður vina sinna til að gá hvort hann megi koma í heimsókn eða þeir í heimsókn til hans. Einnig eru frændsystkinin vinsæl. En vinir hans, Elvar og Tómas eru duglegir að koma í heimsókn og Gunnar Magnús að heimsækja þá. Það er miklu auðveldara að vera með Gunnar Magnús, Erling Árna og einn félaga, heldur en bara bræðurna.

Gunnar Magnús er afskaplega góður við bróður sinn. Hann sækir sérstaklega í hann þegar hann er lítill í sér. Þá vill hann hafa hann nálægt sér og "mjúka" honum, eins og hann segir. En það getur líka verið erfitt að þurfa yfirleitt að bíða, stundum lengi, eftir þjónustu. Þá getur maður orðið pirraður. "Mamma, núna!!! Mamma núna!!!! Ég get ekki bíðað lengi!", heyrir maður stundum. Þannig að þetta getur líka tekið á.

Í lok ágúst byrjaði Gunnar Magnús á eldri deildinni í leikskólanum, Melhúsi. Þar eru krakkar frá 3ja til 5 ára. Honum gengur mjög vel þarna, enda fór allur hópurinn hans í einu upp. Þetta er mun meira krefjandi umhverfi og hann stendur sig ótrúlega vel. Svo kemur hann heim með þessa fínu mannasiði, eins og til dæmis að fara alltaf með diskinn sinn í vaskinn. Stundum gleymir maður sér hvað drengurinn er orðinn stór og getur mikið :)

1 Comments:

  • At 12:14 f.h., Anonymous Nafnlaus said…

    Gaman ad fa "update" um tha braedur :-)
    Brynja

     

Skrifa ummæli

<< Home