Gunnar Magnús, Erlingur Árni og Sigurður Egill

fimmtudagur, október 23, 2008

Þroskaferli Gunnars Magnúsar

Nú er Gunnar Magnús orðinn tæplega 2ja ára og níu mánaða. Honum fleygir áfram í öllum þroska, þessari elsku. Ég er alveg gapandi á hverjum einasta degi yfir öllu sem hann lætur út úr sér. Það hefur t.d. sýnt sig að hann hefur ótrúlega gott minni. Hann man eftir ótrúlega mörgu, þó það hafi ekki verið rifjað upp lengi, aldrei skoðaðar myndir eða neitt. Til að mynda rifjar hann oft upp atburði úr hringferðalaginu okkar í sumar, leikhúsferðirnar okkar á Skilaboðaskjóðuna (í febrúar!), Skoppu og Skrítlu og Einar Áskel, bíóferð með Pabba á Bubba byggir (í mars eða apríl) og alls kyns ómerkileg smáatriði sem drengurinn man og tekur upp á að rifja upp við hin ýmsu tækifæri.

Honum gengur afskaplega vel á leikskólanum og unir sér mjög vel. Fyrst eftir sumarfríið var hann svolítið tregur að fara og erfiðlega gekk að kveðja hann á morgnana (var samt alltaf mjög kátur þegar maður sótti hann og tregur að koma heim). Núna er ekkert mál að fara á morgnana en eflaust á eftir að koma tímabil aftur þar sem honum finnst þetta erfitt. En hann er þvílíkt að blómstra núna. Hann er með þeim elstu á sinni deild núna, kannski að það spili inn í með þetta aukna sjálfsöryggi.

Mér finnst Gunnar Magnús vera ansi næmur á líðan eða ástand fólks, að minnsta kosti veitir hann því athygli hvernig fólki líður. Oft segir hann mér þegar við erum að labba einhvers staðar, að þessi eða hinn sé leiður og segir yfirleitt í kjölfarið að viðkomandi sé aleinn, eins og það sé hræðilegt! Gunnar Magnús er orðinn mun sjálfstæðari og minna háður okkur foreldrunum, svona hvað móralskan stuðning varðar. Hann er alltaf til í að vera eftir, hvert sem við förum. Það er alveg hætt að virka "ok, þá er mamma bara farin"-trixið.... Honum er alveg sama og segir bara bless með bros á vör.

Jæja, ég vildi bara skrifa nokkur orð hérna, það er svo gaman að lesa þetta allt saman eftir á :)

Af okkur fullorðna fólkinu er allt gott að frétta. Við erum náttúrulega bara að melta þetta nýja ástand sem blasir við okkur næstu árin en höfum yfir nákvæmlega engu að kvarta :) Ég veit líka að það á eftir að koma svo margt gott upp úr þessu ástandi, þó svo að illa eigi eftir að fara í mörgum praktískum málum einstaklinga og fyrirtækja. Við þurfum bara að muna hvað skiptir allra mestu máli í lífinu og sinna því og rækta.

Bröns 19. október


Gunnar Magnús hefur mjög gaman af því að leika risaeðlu.


Einn, tveir, þrír....


Svona fyndinn munnsvip set ég upp þegar ég nota grínröddina mína.


Það var ógisslega gaman að borða pasta.


Og fá sér smá vatn með...


Svo fékk ég ís í eftirrétt. Jibbí!


Gaman að grína með ísspýtuna. Langhressasta barnið á Vegamótum.