Gunnar Magnús, Erlingur Árni og Sigurður Egill

miðvikudagur, desember 28, 2005

Viðtal hjá hjúkku

Við fórum í viðtal hjá Margaret hjúkku í dag. Dr. Eckert var í jólafríi en framvegis fer ég í mæðraskoðun á vikufresti. Það var allt gott að frétta hjá hjúkkunni, blóðþrýstingurinn var sá sami og síðast. Tvö kíló höfðu bæst á mig síðan síðast en mig grunar nú að þau séu afleiðing megasukks í rjóma og súkkulaði um helgina. Bumban var hæfilega stór, 36 cm. Hjartslátturinn hjá barninu var 140 slög á mínútu. Þetta eru svona helstu tölur... Þannig að við Gallapagus erum bara mjög hress :)

mánudagur, desember 26, 2005

35 vikur - Jólabumba


Nú eru um það bil 7/8 meðgöngunnar að baki. Eins og sjá má er kúlan orðin nokkuð stór en það er bara gott mál. Við förum næst í læknaviðtal á þriðjudaginn. Það verður forvitnilegt að vita hvað vogin og blóðþrýstingsmælirinn segja, eftir að hafa verið með súkkulaði og rjóma í æð í nokkra daga :S

laugardagur, desember 17, 2005

Meira barnadót

Nú erum við búin að fjárfesta í meiri barnabúnaði. Við fórum í Babies R Us í gær og keyptum bala, skiptiborðsdýnu og taubleyjur. Skiptiborðsdýnan fer svo á skrifborðið inni í lærdómskrók, þar verður því framvegis unnið í mastersverkefni og skipt á bleyjum. Við keyptum svo vöggu á netinu. Vaggan sú er engin smá græja. Hægt er að fella niður hluta af annarri hliðinni og hafa alveg upp við rúmið okkar. Einnig er hægt að stilla hæðina. Svo er órói, titringur og alls kyns hljóð. Það á svo að vera hægt að nota rúmið sem skiptiborð þegar barnið er orðið of stórt til að sofa í því. Hver og einn einasti fídus bráðnauðsynlegur. Það sem heillaði mig hvað mest, er að þetta er vagga sem hægt er að rugga en líka hægt að taka út hjól og þannig færa vögguna út um allt hús á auðveldan hátt.

fimmtudagur, desember 15, 2005

Læknaviðtal 33 vikur

Við fórum til læknisins okkar í gær. Blóðþrýstingurinn minn var hærri en hann hefur verið, 82/122. Mér skilst samt að það sé innan eðlilegu markanna. Nú er bara planið að hreyfa sig meira og vera duglegri að drekka vatn. Legbotninn var 32 cm og hjartsláttur barnsins var 135 slög á mínútu. Ég hef ekki þyngst meira, sem mér finnst voða skrýtið, þar sem ég er orðin töluvert þyngri á mér og manni finnst barnið vera orðið svo stórt. Svo er maður kominn með slit á mallakútinn. En þetta tilheyrir bara prósessnum. Skilst að það stoði lítið að vera duglegur að bera á bumbuna, þetta sé bara í genunum og komi sérstaklega hjá þeim sem eru með ljósa húð. Skrýtið, þar sem ég er með svo dökka húð... Einmitt... Ég held samt náttúrulega áfram að jóðla mallann í olíu og boddílósjonum, í veikri von um að þetta verði ekki mikið.... Óttalegur hégómi er þetta í manni, iss.

miðvikudagur, desember 07, 2005

32 vikur og 2 dagar


Já, þetta er orðinn góður bolti framan á manni núna :) Barnið heldur áfram að mjaka sér til, gera tilraunir til að teygja úr sér og fá hiksta (sérstaklega þegar ég er búin að borða eitthvað sætt, þá held ég að það fari að drekka legvatn á milljón og svelgist aðeins á). Við erum búin að fara í fjórða og fimmta tímann í fæðingarnámskeiðinu. Í þeim fjórða var talað um inngrip í fæðingar (tangir, sogklukkur, keisara usw...). Maður kom nú hálffölur út úr þeim tíma eftir að hafa horft á mænudeyfingar og keisara á myndbandi... Í fimmta tímanum, í gær, var fjallað um brjóstagjöf. Við fengum meira að segja dúkkur til að æfa okkur á. Ég var með lítinn svartan strák og svarta stelpan við hliðina á mér, var með hvíta stelpu. Skiptir náttúrulega engu máli en ég hló að þessu inni í mér... Ég var alveg róleg á að taka þessu æfingarsessjóni alltof alvarlega, þar sem maður átti að klípa í brjóstin á sér og láta dúkkuna drekka. Ég held að við Gallapagus æfum okkur bara saman, þegar þar að kemur.