Gunnar Magnús, Erlingur Árni og Sigurður Egill

miðvikudagur, maí 13, 2009

Junior deild saumaklúbbsins í heimsókn

16. apríl síðastliðinn fengum við Gunnar Magnús góða gesti: Nokkrar vinkonur Mömmunnar úr grunnskóla-saumónum og börnin þeirra. Það var orðið ansi langt síðan við hittumst síðast og það var mál til komið að halda svona ungahitting.


Linda, Íris, Védís og Úlfdís Vala ræða þjóðmálin.

Berglind Björt og Gunnar Magnús voru góð saman að leika inni í herbergi.

Arnór Steinn, tvíburabróðir Berglindar, dundaði sér við lestur góðra bóka.

Úlfdís Vala og Jakob Kári kynnast betur. Jakob horfir í átt til Ernu múttunnar sinnar og stóra bróðurins Arnórs.

Þau eru flott par :)


Íris og Linda tékka á litlu dísinni.

fimmtudagur, maí 07, 2009

Fyrsti hikstinn :)

Jæja, nú var ég í fyrsta skiptið að finna fyrir hiksta hjá litla bró. Það er ótrúlegt hvað maður verður stoltur yfir einhverju svona, sem hljómar kannski frekar ómerkilega. Ég brosi alveg allan hringinn :) Duglegur þessi litli strákur :)

miðvikudagur, maí 06, 2009

Sykurþolspróf og viðtal hjá ljósu - 27,5 vikur

Í gær fór ég í sykurþolspróf úti á heilsugæslu. Prófið fór þannig fram að ég átti að mæta fastandi (á mat OG vökva...) frá því klukkan 22 kvöldið áður. Ég kveið þessu hálfpartinn því flestar nætur fæ ég mér sopa af vatnsglasi á náttborðinu. Ég held ég sofi mest með opinn munninn, lekkert, I know, þ.a. ég verð massa þurr í munninum. Ég náði hins vegar að sofa ágætlega fyrir blessað prófið og var blessunarlega ekkert að drepast úr þorsta. Svo mætti ég stundvíslega klukkan átta. Þá er byrjað á að stinga mig tvisvar, fyrst í fingurinn og svo með sprautu. Svo var ég látin drekka sykursullið, hratt vinsamlegast. Úff... þvílíkt ógeð. Manni fannst allt eitthvað rangt við að innbyrða þetta. Og blandan var ekki einu sinni með appelsínubragði, eins og í Ameríku :( Svo fór ég bara inn í herbergi með bók að lesa og lá á bekk. Mátti ekki hreyfa mig mikið og ekki sofna. Þannig að ég las bara og las... Hafði keypt mér skemmtilega bók daginn áður, sem mælt var með í jóganu: Árin sem enginn man. Mæli hiklaust með henni við alla sem hafa áhuga á barnauppeldi og sjálfsþekkingu. Síðan var tekin blóðprufa eftir klukkutíma og svo aftur eftir tvo klukkutíma. Gaman að vera stungin svona oft eða þannig... en ég þjálfaðist í þessu.

Í morgun hitti ég svo ljósuna mína og fékk að vita að niðurstaðan úr sykurprófinu var fín. Fyrir áhugasama var niðurstaðan 4,1 fastandi, 5,7 eftir 1 klst og 6,4 eftir 2 klst. Blóðþrýstingurinn var 120/80, engin þyngdarauking hjá mér frá því síðast og legbotninn í 28 cm. Gallapagus var hinn rólegasti meðan ljósan þreifaði á honum og var með hjartsláttinn í 150 slögum á mínútu.

Næsta viðtal er svo við 32 vikur.