Í dag hittum við Dr. Charles Petty sem að athugaði hversu mikið legvatn væri hjá litla barninu. Við fengum að fara í sónar og sjá "litla" barnið þar. Nú er barnið orðið það stórt að einungis sjást partar og partar. Við fengum að sjá þetta líka krúttlega andlit og krúttlegar hendur sem hreyfðu sig mjúklega við andlitið. Ohh, hvað maður bráðnaði! Hann gerði einhverjar mælingar til að finna Amniotic Fluid Index, sem við vildum að væri á bilinu 10-20 og AFI reyndist vera 17 í bumbunni, sum sé voða fínt. Hann skoðaði líka fylgjuna, naflastrenginn og blóðflæðið, allt leit þetta vel út og ekkert sem benti til þess að fylgjan væri farin að rýrna.
Svo héldum við út á spítala, þar sem ég var tengd við mónitor til að mæla hjartslátt barnsins og hreyfingar á mallakútnum. Hjúkkan sagði að hún væri að leitast eftir því að barnið hreyfði sig tvisvar sinnum á 20 mínútna tímabili og í kjölfar hreyfinganna vildi hún sjá hækkun í hjartslætti hjá barninu. Gallapagus lét ekki segja sér þetta tvisvar... Hann/Hún gerði þetta ábyggilega um 30 sinnum. Ég hef sjaldan séð jafnmikinn hamagang utan á mér, enda fór hjartsláttur barnsins upp í 180 slög á mínútu. Yfirleitt var hann samt í kringum 140. Ég held að barnið hafi bara vitað að það væri verið að fylgjast með því og fílað athyglina. Því hafi það dansað og dansað.... Ef það bara vissi hversu mikil athygli biði þess utan bumbunnar...
Þannig að próf dagsins komu ákaflega vel út og maður er alveg ofsalega þakklátur fyrir það.
Nú er Mamma/Amma Hildur komin til Seattle og eftir rúma viku er von á Stínu systur/frænku :) GP ætti því að vera óhætt að láta sjá sig, þar sem foreldrarnir eru komnir með reynslubolta í Mömmó í húsið.